Fyrsta svæði er neðsta veiðisvæði Selfljóts og nær frá ósi þess að stæði gömlu brúarinnar, rétt ofan við núverandi brú við bæinn Unaós. Frá Egilsstöðum er ekinn þjóðvegur 94, Borgarfjarðarvegur, um 48 km leið. Flóðs og fjöru gætir á veiðisvæðinu, einkum neðri hluta þess. Gott er því að kynna sér flóðatöflu áður en lagt er af stað í veiðiferðina. Veiðin er fyrst og fremst bleikja, sem er yfirleitt nýgengin úr sjó og sérlega bragðgóð, urriði þekkist líka. Náttúrufegurð er mikil á svæðinu og auðugt fuglalíf.
Þrír veiðistaðir eru merktir á svæðinu. Vaðtangahylur (2) er rétt neðan við nýju brúna að austanverðu. Brúarhylur (3) eru litlu ofar, við gamla brúarstæðið. Þangað má aka eftir gömlum þjóðvegi, báðum megin frá. Aðgangur að báðum þessum veiðistöðum er sérlega auðveldur, þar sem akfært er að þeim. Þriðji merkti veiðistaðurinn er Nauteyrarhylur (1) en hann er utar/norðar og þangað verður að ganga. Best er að fylgja merktri gönguleið út í Stapavík sem byrjar skammt ofan við heimkeyrsluna að Unaósi. Um 20 mínútna gangur er að Nauteyri. Víða má renna fyrir fisk nær ósnum, þó fleiri veiðistaðir séu ekki merktir. Tæplega klukkutíma gangur er frá Nauteyri út að sjó.