Veiðisvæðin

Tenglar

Selfljót og nágrenni

Austast á Héraðssöndum eru ósar Selfljóts og þar byrjar jafnframt fyrsta veiðisvæði fljótsins. Sjöunda og efsta veiðisvæðið endar í Gilsárgili aðeins 15 km frá Egilsstöðum. Veiðisvæðin eru fjölbreytt og umhverfið síbreytilegt. Dyrfjöll og Beinageitarfjall tróna yfir fallegum veiðistöðum, djúpum gljúfrum og hyljum eða breiðum lygnum.

Í Selfljóti og Gilsá eru fjölbreyttir veiðimöguleikar. Upp ósasvæðin sækja silfraðar bleikjur, þar er boðið upp á breytilegan veiðitíma með möguleika á ógleymanlegri miðnæturveði. Á miðsvæðunum sveimar sprækur urriði og bleikja og í Gilsá og Bjarglandsá má fá stórar bleikjur og lax þegar líður á sumarið. Veiðisvæðin sjö bjóða hvert með sínu móti upp á friðsæld og einstaka náttúrufegurð og viðfangsefni við hæfi, jafnt fyrir þrautþjálfaða fluguveiðimenn og þá sem nota veiðiferðir til að sækja sér hugarró og samverustundir fyrir fjölskylduna.

Hægt er að kaupa veiðileyfi í Selfljót á netinu í gegnum Veiðitorg.

Fjöldi áhugaverðra staða og gistimöguleika má finna í nágrenninu, hvort sem er á Fljótsdalshéraði, Egilsstöðum eða Borgarfirði eystri. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins Múlaþings auk þess sem hægt er að nálgast upplýsingar um ferðaþjónustu á Austurlandi á www.east.is.